Engin landamæri
Ár hvert deyja mörg þúsund manns vegna landamæra. Þau deyja vegna ofsókna eða örbirgðar handan við þau, eða þau deyja við að reyna að komast yfir þau. Þetta er fólk sem á börn sem það er að reyna að veita betra líf, til að forða þeim frá sprengjum, fólk sem má ekki upplifa kynhneigð sína heima fyrir, fólk sem er ofsótt vegna skorts á málfrelsis, fólk sem er á flótta.
Flest okkar líta á landamæri sem áþreifanlegan hlut sem auðvelt er að skilgreina. Þau eru álitin vera mörk á milli þjóðríkja og áþreifanleg í formi girðinga, öryggishliða og flugvalla. En þegar nánar er að gáð kemur í ljós að það eru ekki þjóðríkin sem skilgreina landamæri sín – heldur eru það landamærin sem búa til þjóðríkin. Dæmi um þetta má sjá á landamærum Afríku og Mið-Austurlanda sem dregin voru upp af nýlenduþjóðunum þvert á mörk þjóðernishópa. Í sumum tilfellum kljúfa landamæri þjóðernishópa og samfélög og í öðrum tilfellum samanstanda þjóðríki af mörgum mismunandi þjóðernishópum, samfélögum, menningum og trúarbrögðum.
Landamæri geta verið skilgreind á ólíkan hátt af ólíkum hópum fólks. Margir Vesturlandabúar líta á landamæri sem eitthvað sem auðvelt er að komast yfir með því að veifa vegabréfi og fara í gegn um málmleitartæki. Fyrir aðra merkja landamæri lífshættu, ófrelsi, örbirgð og dauða.
Á sama hátt merkir afnám landamæra misjafna hluti. Fyrir þau okkar sem hafa alist upp við forréttindi vestrænna samfélaga, merkir afnám landamæra vegabréfslaus ferðalög og eru því fyrst og fremst lúxus. Fyrir marga aðra þýðir afnám landamæra að þau geti sest að þar sem þau vilja í heiminum, hvort sem það felur í sér einhverja skriffinsku eða ekki. Margir Íslendingar átta sig til dæmis ekki á því hversu erfitt það er fyrir manneskju sem er upprunin utan EES svæðiðsins að fá leyfi til að búa á Íslandi. Afnám landamæra gæti til dæmis þýtt að hver sem er mætti setjast hér að og þeirri mismunun á grundvelli uppruna sem nú er stunduð yrði hætt.
No Borders Iceland er hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem stefnir ekki bara að afnámi landamæra í þeim skilningi orðsins, heldur einnig að afnámi þjóðríkisins og niðurbroti ýmissa múra milli fólks, bæði efnislegra og hugmyndafræðilegra múra. Því stefna No Borders einnig að fjölmenningarlegu samfélagi og endalokum þjóðernishyggju og rasisma. No Borders Iceland stefna að fullu ferðafrelsi fyrir alla.
Um No Borders
No Borders eru lauslega tengdar hreyfingar og grasrótarsamtök sem stefna að því að draga úr rasisma og þjóðernishyggju og því ofbeldi sem slíkar stefnur valda. Eins og nafnið gefur til kynna byggir hugsjón þeirra á því að afnema landamæri og landamæraeftirlit sem þær álíta í eðli sínu ofbeldisfull fyrirbæri sem stuðla að mannréttindabrotum, arðráni og stríðsrekstri alls staðar í heiminum.
Hugsjón No Borders er algjört ferðafrelsi. Það er þó langur vegur þangað. Í millitíðinni viljum við stuðla að því að ekki verði brotið frekar á öðrum grundvallarréttindum fólks sem ferðast eða flyst á milli staða.
Stærstur hluti starfs No Borders snýst þó um málefni flóttafólks og óskráðra einstaklinga, enda eru þeir augljósustu og varnarlausustu þolendur landamæraofbeldis. Samúð samtakanna snýr þó að öllum þeim sem búa við skert ferðafrelsi af einhverjum toga; þeim sem hefur verið vísað úr landi og þeim sem geta ekki yfirgefið heimaland sitt.
Hugmyndin um afnám landamæra nýtist sem leið til að brjóta niður þá ósýnilegu múra sem við sem samfélag höfum byggt upp í kring um okkur sjálf. Það samfélagslega valdakerfi sem við búum við hefur hag af því að við tölum ekki saman. Þessum skorti á samskiptum er viðhaldið af menntakerfinu og fréttamiðlum. Þetta ýtir undir rasisma, kynjahyggju, útlendingaótta, heimsvaldastefnu og þrælahald.
No Borders á Íslandi
Þrátt fyrir að þó nokkrir hópar hafi talað gegn rasisma á Íslandi í gegn um árin, beindist lítil gagnrýni að þeim hundruðum brottvísana flóttamanna sem íslenska ríkið stóð að. Árið 2008 varð þó breyting á þegar fjöldahreyfing spratt fram þegar vísa átti hinum keníska Paul Ramses úr landi, og tókst henni að lokum að fá hann aftur til landsins eftir að hann hafði verið sendur til Ítalíu. Í kjölfar þess jókst vitund fólks um aðstæður flóttamanna sem fóru sjálfir að berjast fyrir réttindum sínum í samvinnu við heimamenn. Óformleg samvinna fóttamanna og íslenskra aktívista lögðu grunninn að því sem varð síðar hinn íslenski armur No Borders hreyfingarinnar.
Hugmyndir No Borders
Að undanskilinni hugsjóninni um að afnema landamæri og rasisma, er fátt sem tengir þá hópa sem starfa undir nafninu No Borders. Margar spurningar vakna þegar við ræðum um landamæralausan heim. Þar sem þjóðríki eru skilgreind eftir landfræðilegum mörkum þeirra, myndi landamæraleysi þá ekki þýða endalok þjóðríkisins? Mun þá enn vera til staðar löggjafarvald eftir afnám landamæra, og ef svo yrði, yfir hvaða svæði og hvaða fólk myndi vald þess ná? Það hefur ekki náðst neitt samkomulag um svör við þessum spurningum. Þó svo að afnám landamæra sé róttæk og byltingarkennd hugmynd eru ekki allir No Borders aðgerðasinnar fylgjendur anarkisma. Í raun snýst mikið af baráttu No Borders um það að lögum og reglum sé fylgt, eða um endurskoðun þeirra. Margir þeirra aðgerðasinna sem starfa með hreyfingunni berjast fyrst og fremst fyrir því að ríki virði mannréttindi eins og þau eru skilgreind af alþjóðasamningum. Margir einbeita sér alfarið að lögfræðilegri aðstoð. Á meðan aðrir No Borders aðgerðasinnar eru ef til vill ósammála þeirri aðferð að semja við ríkið og að ríkið fái vald til að skilgreina hvað eru mannréttindi og hvað ekki, eru alþjóðlegar hreyfingar No Borders samhuga í því að þvælast ekki hver fyrir annarri og fagna hverri tilraun til að hjálpa fórnarlömbum landamæraeftirlits.
Mun landamæraleysi valda sameiningu mannkyns eða myndi félagsleg spenna aukast ef milljónir manna flyttust til yfir hnöttinn? Hvað um ólögleg vímuefni? Hvað um mansal? Hvað um glæpi? Eigum við að leyfa því að flæða frjálst um jörðina? Það bíða okkar mörg vandamál og á flestum þeirra höfum við enga lausn. Við neitum því ekki að afnám allra landamæra á einum degi myndi valda alls kyns vandamálum en það verður ekki horft fram hjá því að landamæri hafi í sjálfu sér skapað margar af þeim félagslegu aðstæðum sem valda glæpum, fátækt, vímuefnamisnotkun o.s.frv. Á meðan fjármagn flæðir frjálst inn og út úr hinum „þriðja heimi“ er ekki hægt að segja það sama um fólkið sem þar býr. Á meðan ferðalög, viðskipti og frelsi fæst aðeins með því að hafa vegabréf, býr risastór hluti mannkyns við þann veruleika að löglegt vegabréf er aðeins fjarlægur draumur. Þessvegna eru landamæri einn liður í því að gera heimsvaldastefnu, arðrán og ójafnrétti mögulegt. Það kúgar hina fátæku og stríðshrjáðu á meðan hinir ríku og valdamiklu hagnast af þessum þáttum.
Myndi landamæraleysi stuðla að endalokum heimsins eins og við þekkjun hann? – Já, án nokkurs vafa. Heimur sem er rifinn í sundur af tæknivæddum stríðsrekstri, þjóðernishyggju og efnahagslegri ógnarstjórn væri vart möguleiki án landamæra. No Borders gerir sér grein fyrir vandamálum sem gætu skapast vegna menningarlegra átaka. Hreyfingin hefur ekki ofur-einfalda nálgun hvað varðar flóttamenn eða hælisleitendur. Hún stefnir ekki endilega að betri lífsskilyrðum fyrir þá „góðu“, „saklausu“ eða löghlýðnu. Hugmyndafræðin er einföld og skýr: Við skilgreinum einfaldlega réttinn til að ferðast úr stað sem grundvallarmannréttindi sem allir ættu að geta tekið sem sjálfsagðan hlut, og lítum þess vegna á landamæri sem eina tegund ofbeldis og kúgunar.
Á meðan landamæri eru til staðar verður aðskilnaður til staðar. Við viljum enda þennan aðskilnað og erum fús til að mæta afleiðingunum. Hvernig við förum að þessu er fyrir hvern og einn að finna út úr, rétt eins og við hvert annað vandamál í lífinu.
Hvernig starfar No Borders?
Hreyfingin er útbreidd, fjölbreytt og lauslega tengd innbyrðis. Það ríkja engar sameiginlegar ákvarðanir um það hvernig hún vinnur að markmiðum sínum. Aðferðir hennar víðs vegar um heiminn ná allt frá því að henda múrsteinum, yfir í algengari aðferðir, svo sem þátttöku í opinberri umræðu, mótmæli, beinar aðgerðir og lögfræðilega aðstoð. Fjáröflun á sér yfirleitt stað með tónleikum og öðrum atburðum og málefninu er komið til skila á viðburðum, mótmælum, réttarhöldum og í útgáfu. Og með internetinu.
Hvernig No Borders hópur vinnur er undir honum sjálfum komið að ákveða og vera ábyrgur fyrir. Allar aðferðir eru nothæfar á meðan þær eyðileggja ekki fyrir málstaðnum og samvinna er algeng við önnur samtök. No Borders er oft í samstarfi við aðra hópa, svo sem anarkista eða hústökufólk og því notast No Borders hópar oft við ákvarðanatökuaðferðir þessara hópa þar sem þátttökulýðræði er stundað og reynt er að koma í veg fyrir stigveldi innan hreyfingarinnar. Það er þó alltaf undir hverjum og einum hópi komið hvernig skipulag hans og aðferðir eru.
Eitt af einkennum hreyfingarinnar er áherslan á samstöðu fremur en leiðtoga, og því styðja hóparnir oft við aðra hópa sem skipulagðir eru af innflytjendum eða flóttafólkinu sjálfu.
Það sem svíður sárast er að þó einstakir flóttamenn hafi haft ávinning af starfi No Borders, þá hefur samtökunum ekki tekist að stuðla að neinum grundvallarbreytingum á lögum eða framförum á því hvernig stjórnsýslan hagar málefnum hælisleitenda og útlendinga. Flóttamenn eru enn geymdir í Keflavík eins og vara sem bíður þess að vera flutt úr landi, á meðan íslenska landhelgisgæslan gætir landamæra í suður Evrópu fyrir Frontex, þar sem nánast hver einasti flóttamaður sem sækir um hæli hér er handtekinn og fangelsaður og þar sem þeir sem bera ábyrgð á þessu sitja í góðum stöðum og þurfa ekki að svara fyrir ákvarðanir sínar.
Á hinn bóginn hefur aktívismi á borð við þann sem No Borders stundar einungis verið til staðar hér á landi í 15 ár og þeir eru ekki margir sem lyft hafa litla fingri til þess að aðstoða hælisleitendur og barist fyrir réttindum útlendinga. Við vonum að þetta sé bara byrjunin og fleiri sjái sér fært að vinna að þessum málstaði, stofni fleiri hópa og skapi betri aðferðir til að afnema landamæri, raunveruleg og ímynduð. No Borders stefnir að fjölmenningarlegu samfélagi, algjöru ferðafrelsi og endalokum þjóðernishyggju og rasisma. Einhvern tímann verður það að byrja og hvers vegna ekki núna?
Jafnrétti verður aldrei náð án ferðafrelsis.