Yfirlýsing vegna óforskammaðs ljúgvitnis Útlendingastofnunnar

5 svör við ummælum ÚTL:

Fyrir stuttu bar Útlendingastofnun ljúgvitni með ummælum sínum sem birt voru á vef stofnuninnar á island.is Í dag birtist umfjöllun á Vísi þar sem ummæli Útlendingastofnunnar eru endurómuð. Líkt og áður hefur komið fram eru ummæli stofnuninnar byggð á sandi, hér með hafa þau verið leiðrétt. 

1. ,,Útlendingastofnun segir ekkert benda til þess að rússneskri fjölskyldu sem var á dögunum vísað úr landi fái ekki vandaða og efnislega málsmeðferð í Króatíu“ – Er það vandað að senda pólitíska stjórnarandstæðinga aftur í opinn dauðann í Rússlandi? Því það er einmitt það sem króatísk stjórnvöld gera skv. skýrslu Amnesty International o.fl. mannréttindasamtaka.

2. ,,Hagsmunum tveggja vikna gamalla tvíbura hafi ekki verið stefnt í hættu þegar þeir voru sendir úr landi ásamt fjölskyldu þeirra á dögunum.“ – Það er ómögulegt að segja. Það fór aldrei fram hagsmunamat á tvíburunum. 

3. ,,Samkvæmt reglum Dyflinarsamstarfsins, sem Ísland er aðili að, geta umsækjendur um alþjóðlega vernd ekki valið í hvaða landi umsókn þeirra er afgreidd heldur er hún samkvæmt meginreglu afgreidd í því ríki sem ber ábyrgð á umsókninni.“ – Reyndar er það svo, að þegar umsækjandi er sökum veikinda, þungunar, nýfæddra barna eða fötlunar háður öðrum fjölskyldumeðlimi (sem dvelur löglega í öðru aðildarríki) á ábyrgð á umsókn að jafnaði að flytjast yfir til þess aðildarríki sem fjölskyldumeðlimirnir eru í, sbr. 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Það er Ísland. Ísland hafði líka heimild skv. 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar til að taka ábyrgð á umsókninni vegna fjölskyldutengsla og mannúðarástæðna. Hvenær eiga fjölskyldutengsl og mannúðarástæður við ef ekki hér? - í máli nýbura, fatlaðrar konu sem er nýkomin úr keisaraskurði og pólitísks stjórnarandstæðings. Í máli fjölskyldu sem á alla sína nánustu fjölskyldumeðlimi á Íslandi, sem eru handhafar verndar af sömu ástæðum og þau eru að flýja. Dyflinnarreglugerðin ljáir meginreglunni um fjölskyldueiningu og hagsmunum barna mikla vigt. Dyflinnarreglugerðin var ekki ástæðan fyrir því að málið fór eins og það fór. Það er lögleysa ÚTL og KNÚ.

4. ,,Fram kemur að meðan mál eru til meðferðar hjá þarnefndum stjórnvöldum eigi umsækjendur til að mynda rétt á allri grunnþjónustu, svo sem húsnæði, mataraðstoð, framfærslu og grunnheilbrigðisþjónustu. Börnum umsækjenda um vernd er jafnframt tryggður réttur til menntunar og aðgangur að heilbrigðisþjónustu, þar með talið ungbarnavernd.“ – Ekkert af þessu skiptir máli ef endanleg niðurstaða Króata verður að synja þeim um alþjóðlega vernd, sem hún líklegast verður. Þar að auki er fjölskyldan nú þegar búin að sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð í Korenica detention site í Króatíu skv. yfirlýsingu króatísku mannréttindasamtakanna Solidarity Line. Það var þegar þau komu fyrst til landsins og var haldið í varðhaldi með ungu barni sínu við niðurlægjandi aðstæður.

5. Útlendingastofnun hefur vikið frá sinni margumtöluðu reglu um að tjá sig ekki um einstaka mál. Hún hefur nú gert það, en ekki til þess að veita skýrleika í málinu heldur til að klekkja á fjölskyldunni. Útlendingastofnun hefur ekki nýtt tækifærið til að útskýra nauðsyn þess að vísa úr landi tveggja vikna tvíburum, handtaka foreldra þeirra og senda þau öll út í óvissuna, enda er slík aðgerð svo ómannúðleg að hún stenst enga málsvörn.

Lokaorð: 

Næsta mánudag, þann 13. október klukkan 09:00 verður haldinn mótmælafundur við dómsmálaráðuneytið vegna meðferðar stjórnvalda á fjölskyldunni og verður Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra afhentar kröfur fjölskyldunnar og samtakanna: 

  1. Ríkisstjórnin beiti öllum ráðum til að tryggja að fjölskyldan verði ekki send til Rússlands frá Króatíu, þar sem hún sætir pólitískum ofsóknum og yfirvofandi hættu á pyntingum, frelsissviptingu og lífláti.

  2. Fjölskyldunni verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með samþykki Alþingis.

  3. Íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að koma fjölskyldunni aftur heim til Íslands. Svo sem með samskiptum við króatísk stjórnvöld um að flytja ábyrgðina á umsókn þeirra til Íslands skv. Dyflinnarreglugerðinni, afturköllun á úrskurði kærunefndar, veitingu dvalarleyfa eða öðrum úrræðum.

  4. Ríkisstjórnin fari að lögum og virði 42. grein útlendingalaga – banni við því að senda fólk þangað sem lífi þeirra er ógnað.

  5. Fallið verði frá frekari lagasetningu sem hefur kerfisbundið rýrt réttindi fólks á flótta. Afnema þarf lagabreytingar frá 2023 og 2024 sem leiddu til þessa máls og annarra sambærilegra.

Next
Next

What is happening at the University of Iceland?