Gadzhi Gadzhiev skrifar bréf til Kristrúnar Frostadóttur

Eftirfarandi er bréf frá Gadzhi Gadzhiev til Kristrúnar Frostadóttur, forsætisráðherra. Bréfið var lesið fyrir hönd Gadzhi á opnum fundi Samfylkingarinnar sem fór fram 18. október 2025.

Að lestri loknum kvaðst Kristrún ekki vilja koma neinum skilaboðum áleiðis til fjölskyldunnar.

Kæra Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra Íslands,

Ég heiti Gadzhi, og ég er frá Dagestan, héraði sem enn er undir hernámi Rússlands. Það er með sársauka í hjarta sem ég ávarpa þig, ekki sem stjórnmálamann, heldur sem manneskju.

Árið 2016 var ég numinn á brott af rússneskum sérveitarmönnum í Dagestan og úrskurðaður án dóms og laga í fimm ára fangelsi. Af þeim tíma sem ég varði í fangabúðunum í Síberíu eyddi ég tæplega fjórum árum í einangrunarvist, þar sem ég var pyntaður, líkamlega, kynferðislega og andlega. Ég var kerfisbundið niðurlægður vegna uppruna míns.

Árið 2021 var ég leystur úr haldi, en var áfram undir strangri eftirlits- og tilkynningarskyldu: Ég varð að mæta reglulega á lögreglustöð, sætti daglegu stofufangelsi 12 klukkutíma sólarhringsins og var meinað um að yfirgefa heimabæinn minn. Þegar ég reyndi að sækja um vegabréf var umsókn minni ávallt synjað án nokkurrar skýringar.

Árið 2022, nokkrum dögum fyrir almenna herkvaðningu í Rússlandi vegna innrásarstríðsins í Úkraínu, tókst mér að flýja land. Stuttu síðar komu útsendarar leyniþjónustunnar FSB á heimili föður míns og kröfðust skýringa á því hvert ég væri niðurkominn.

Við dvöldum í Tyrklandi í tvö ár, þar sem fólk frá Kákasus-svæðinu sætir mismunun og fær ekki dvalarleyfi. Um þessar mundir var ég giftur og með barn, við bjuggum við algjöra örbirgð. Fæðing eiginkonu minnar var erfið — læknar skildu eftir 1,5 cm nál í legi hennar, og þrátt fyrir nokkrar skurðaðgerðir var ekki hægt að fjarlægja hana.

Þegar við áttuðum okkur á því að ekkert biði okkar í Tyrklandi ákváðum við að leita verndar í landi sem við vissum að mannréttindi væru höfð í hávegum og systkini mín og móðir höfðu fengið vernd í, á grundvelli þeirra pólitísku ofsókna sem ég sætti sjálfur. Árið 2024 flugum við til Bosníu, fórum yfir til Króatíu, síðan í gegnum Ungverjaland, og loks komum við til Íslands.

Við komu okkar til Íslands sóttum við tafarlaust um alþjóðlega vernd á grundvelli ofsókna af pólitískum og trúarlegum ástæðum. Þrátt fyrir að móðir mín, bróðir og systir hafi verið með alþjóðlega vernd síðan 2017 vegna þeirra ofsókna sem ég sætti og fengið varanlegt dvalarleyfi í kjölfarið, var umsókn okkar hafnað.

Mál okkar var á borði starfsmanns ríkislögreglustjóra, Olgu að nafni. Hún sagði ítrekað við mig og eiginkonu mína — sem þá var ófrísk af tvíburum og á áhættumeðgöngu — að „hún skuli ekki fá að fæða hér.“

Í viðurvist eiginkonu minnar, sem var í afar viðkvæmu og streitu­miklu ástandi, sagði Olga að við værum hér í ólöglegri dvöl og að hún myndi persónulega sjá til þess að við yrðum send til Rússlands.

Þessi orð særðu okkur djúpt og vöktu mikinn ótta, sérstaklega hjá eiginkonu minni, sem var þegar í hættu á að missa fóstrin. Þrátt fyrir skýr læknisvottorð sem sögðu að hún væri ekki ferðabær, vísaði Olga þeim á bug sem „óhæfum“ og hélt því fram að „sjálfstæður sérfræðingur“ hefði metið þau ógild. Enn þann dag í dag veit ég ekki hver þessi svokallaði sérfræðingur var, né hvers vegna álit læknisins var hunsað.

Eftir að málið vakti athygli í fjölmiðlum og aðgerðasinnar höfðu lagt okkur lið, var okkur tilkynnt um að við mættum dvelja á Íslandi þar til eftir fæðingu.

15. september 2025 fæddi eiginkona mín tvíbura­systur með keisaraskurði. Hún var útskrifuð af sjúkrahúsi 17. september. Við höfðum samband við Olgu til að fá hjálp. 22. september skrifuðum við henni, og 24. september svaraði hún því að hún væri í stuttri utanlandsferð og myndi hafa samband fljótlega.

29. september réðust lögreglumenn inn á heimili okkar, tóku af okkur farsíma — þar á meðal síma móður minnar og systur sem voru viðstaddar — og handtóku okkur án útskýringa. Við fengum 20 mínútur til að taka saman eigur okkar og vorum flutt í varðhald á óþekktum stað. Að morgni 30. september vorum við flutt með leynd um sérstakan inngang á keflavíkurflugvelli, sett í einkaþotu og vísað úr landi til Króatíu — án dómsúrskurðar, án samskipta við lögmann, og án nokkurrar tilkynningar.

Í Króatíu vorum við vistuð í flóttamannabúðum, í lokuðu herbergi þar sem kakkalakkar gengu lausir. Þar fengum við í fyrsta sinn afhent íslensk fæðingarvottorð dætra okkar — útgefin 18. september — skjöl sem höfðu verið í vörslu Olgu og meðvitað haldið frá okkur.

Þegar brottflutningurinn átti sér stað var eiginkona mín enn að jafna sig eftir keisaraskurð tveimur vikum áður. Flugið var áhættusamt gagnvart heilsu hennar og lífi — en starfsmennirnir vissu þetta og framkvæmdu samt brottvísunina. Ekki lágu fyrir nein læknisvottorð eða annars konar samþykki læknis um að fjölskylda mín væri ferðabær.

Getur verið að þessi brottflutningur hafi farið fram af slíku offorsi þar sem við hefðum átt rétt á efnislegri meðferð þann 4. október?

Þetta var ekki löglegur brottflutningur — þetta var mannrán, alvarlegt brot á öllum lagalegum og siðferðilegum viðmiðum. Þetta minnti mig á Rússland.

Nýlega var nokkrum hælisleitendum í flóttamannabúðunum sem við nú dveljum í tilkynnt um að þeim yrði ekki leyft að búa í Króatíu. Margir bíða í tvö til þrjú ár eftir ákvörðun, lifa í erfiðum aðstæðum, án vonar og verndar, að lokum er þeim vísað úr landi til Rússlands. Samkvæmt gagnagrunni AIDA og Amnesty International fá aðeins 0,3% rússenskra hælisleitenda í Króatíu alþjóðlega vernd. Hinum 99,7 prósentunum er vísað aftur í krumlur Pútíns.

Það er mér sárt að skrifa þessi orð. Ég kom til Íslands með þá einu von að finna öryggi og mannlega reisn, eitthvað sem okkur hafði verið neitað um í Rússlandi.

En nú virðist sem að ríki Evrópu taki þátt í mannfjandsamlegri stefnu Pútíns og neiti okkur um að vera manneskjur.

Virðulegi forsætisráðherra og þingmenn.

Ég biðla til ykkar af einlægni um að þið beitið ykkur í máli okkar, rannsakið gjörðir starfsmanna ríkislögreglustjóra — og leyfið fjölskyldu minni að snúa aftur til Íslands, þar sem móðir mín, bróðir og systir búa. Meðferð líkt og sú sem við fjölskyldan höfum orðið fyrir má ekki fá að endurtaka sig.

Tilhugsunin um að verða sendur til Rússlands er ekki það sem ég óttast mest, ég hef nú þegar upplifað áralangar pyntingar í rússnesku fangelsi og þekki það sem bíður mín. Það sem er öllu alvarlegra er það hver örlög barna minna verða, hvort við eiginkonan mín fáum nokkurn tímann að sjá þau aftur eftir að við verðum skilin að frá þeim. Hvort þau endi á munaðarleysingjahæli og fái nokkurn tímann að sameinast okkur á ný.

Við biðjum ekki um neina vorkun.

Við biðjum aðeins um réttlæti, öryggi, og mannlega reisn.

Með virðingu og von um áheyrn.

Gadzhi

Króatía, október 2025

Kröfur til ríkisstjórnar Kristrúnar Frostadóttur eru eftirfarandi:

1. Ríkisstjórnin beiti öllum ráðum til að tryggja að fjölskyldan verði ekki send til Rússlands frá Króatíu, þar sem hún sætir pólitískum ofsóknum og yfirvofandi hættu á pyntingum, frelsissviptingu og lífláti.

2. Fjölskyldunni verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur með samþykki Alþingis.

3. Íslensk stjórnvöld leiti allra leiða til að koma fjölskyldunni aftur heim til Íslands. Svo sem með samskiptum við króatísk stjórnvöld um að flytja ábyrgðina á umsókn þeirra til Íslands skv. Dyflinnarreglugerðinni, afturköllun á úrskurði kærunefndar, veitingu dvalarleyfa eða öðrum úrræðum.

4. Ríkisstjórnin fari að lögum og virði 42. grein útlendingalaga – banni við því að senda fólk þangað sem lífi þeirra er ógnað.

5. Fallið verði frá frekari lagasetningu sem hefur kerfisbundið rýrt réttindi fólks á flótta. Afnema þarf lagabreytingar frá 2023 og 2024 sem leiddu til þessa máls og annarra sambærilegra.

Previous
Previous

Frumvarp til laga um einangrunarbúðir

Next
Next

Icelandic Putinism