Frumvarp til laga um einangrunarbúðir

Athugasemdir No Borders Iceland um frumvarp til laga um brottfararstöð (Þingskjal 112  —  112. mál.)

No Borders Iceland fordæmir afdráttarlaust frumvarp dómsmálaráðherra um svokallaða brottfararstöð. Um er að ræða lagalega heimild til að koma á fót einangrunarbúðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd og aðra útlendinga. 

Frumvarpið er birtingarmynd á siðferðislegu gjaldþroti stjórnvalda og því hvernig valdníðsla getur verið hulin með pólitískri misbeitingu tungumálsins og yfirvarpi. Stjórnvöld hyggjast innleiða lög sem stuðla að frelsissviptingu saklausra einstaklinga, þar á meðal ósakhæfra barna, sem ekki hafa framið neina glæpi, heldur einungis sótt um alþjóðlega vernd.

Verði frumvarp þetta að lögum munu stjórnvöld eðli málsins samkvæmt gera það refsivert að koma til landsins í leit að alþjóðlegri vernd, hvort sem að um ræðir flótta undan pólitískum ofsóknum, pyndingum, mansali, stríði, þrælahaldi eða hópmorði.

Athugasemd um orðanotkun

„Brottfararstöð“ er nýtt stjórnsýsluhugtak sem er hvergi að finna í íslenskri orðabók. Það hefur þann tilgang að hylma yfir raunverulegan ásetningi stjórnvalda, að koma á fót einangrunarbúðum þar sem börn og fullorðið fólk á flótta er frelsissvipt fyrir það eitt að sækja um alþjóðlega vernd.

Í þessari umsögn verður ekki tekið þátt í yfirvarpi stjórnvalda með notkun á nýyrðinu „brottfararstöð”, hér eftir verða áform ríkisstjórnarinnar kölluð sínu rétta nafni, einangrunarbúðir. Samtökin telja það orð lýsa eðli þessa úrræðis sem frumvarpið fjallar um af raunsæi og heiðarleika, tvennt sem skortir verulega í frumvarpi þessu.

Íslenska orðið yfir það þegar fólk er sent úr landi gegn vilja sínum er ekki brottför, heldur brottvísun eða brottrekstur, og íslenska orðið yfir það þegar fólki er haldið einhvers staðar gegn vilja sínum er ekki stöð, heldur fangelsi eða varðhald.

Þótt í frumvarpinu sé talað um brottfararstöð, lýsir það í raun aðstæðum sem jafngilda einangrunarbúðum. Brottfararstöð kann að hljóma vægara, en í reynd er þar um að ræða stað þar sem fólk er svipt frelsi sínu, stundum mánuðum eða árum saman, án þess að hafa framið glæp.

Í drögum að frumvarpinu sem birt voru í samráðsgátt er að finna ákvæði þar sem fjallað er um fangaverði. Í því frumvarpi sem nú hefur verið lagt fram fyrir þingið hefur því orði verið skipt út og er nú einfaldlega fjallað um starfsmenn. Ekki hefur verið gerð breyting á hlutverki fangavarða heldur hefur nafninu einungis verið skipt út, ekki er hægt að horfa á þessa breytingu öðruvísi en verið sé að hylma yfir hinn raunverulega ásetning með sama hætti og er gert með notkun á nýyrðinu brottfararstöð. Slík orðræða er ekki merki um mannúð heldur vitnisburður um meðvitund þingmanna um eigin ómannúð. 


1. Afvegaleiðing á tilgangi frumvarpsins: Skollaleikir stjórnarliða

Neyðarskýli Rauða Krossins 

Í greinargerð frumvarpsins og ræðum dómsmálaráðherra við 1. umræðu frumvarpsins kemur fram að úrræði á borð við neyðarskýli Rauða krossins og búsetuúrræði ríkislögreglustjóra verði óþörf með tilkomu einangrunarbúða. Einnig kemur fram í greinargerð frumvarpsins að starfsemi neyðarskýlis Rauða krossins og búsetuúrræðis ríkislögreglustjóra verði færð í sama húsnæði og einangrunarbúðir þegar starfsemi þar hefst. 

Samtökin árétta að í neyðarskýlinu séu nærri alfarið einstaklingar sem ekki er hægt að vísa á brott. Ekki er um að ræða einstaklinga sem bíða brottflutnings og stöðu þeirra verður ekki breytt með frelsissviptingu. 

Dæmi eru um einstaklinga í neyðarskýlinu sem ekki er hægt að vísa á brott vegna hættu á broti gegn 42. gr. útlendingalaga, grundvallarreglunnar um banni við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. (non-refoulement)

Fyrsta málsgrein 42. gr. útlendingalaga hljóðar svo: „Ekki er heimilt samkvæmt lögum þessum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir”

Eru 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og 69. grein stjórnarskrár eru undirstöður 42. gr. útlendingalaga. Þá jafnast brot á 42. gr. útlendingalaga við brot á Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands.

Vistun einstaklinga sem ekki er hægt að vísa úr landi vegna hættu á broti við banni við endursendingu (non-refoulement) býður upp á þá hættu að mál þeirra einstaklinga gleymist og verði þeir látnir hírast til enn lengri tíma en kveðið er um í ákvæði frumvarpsins um hámarkslengd vistunartíma. Eru aðstæður þessar heimatilbúið vandamál stjórnvalda og afleiðing breytinga á útlendingalögum sem samþykktar voru árið 2023 (Þskj. 400 – 382. mál) 

Tillögur að lagabreytingum

No Borders Iceland leggur til að komið verði í veg fyrir að slíkar aðstæður skapist með innleiðingu á skýrri, virkri og raunverulegri vernd gegn broti á banni við endursendingu (non-refoulement) í framkvæmd, og ekki aðeins í innantómu orðalagi á pappír. 

Til vara leggja samtökin til afnáms lagabreytinga frá árinu 2023 (Þskj. 400 – 382. mál) 

Til þrautavara leggja samtökin til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á 33. grein laga um útlendinga: 

     a.      8. mgr. orðast svo:

Þegar Útlendingastofnun hefur hafnað umsókn ríkisborgara EES- eða EFTA-ríkis um alþjóðlega vernd á hann ekki rétt á þjónustu samkvæmt grein þessari.

     b.      9. mgr. fellur brott.

Ósamræmi við fyrri yfirlýsingar

Í búsetuúrræði ríkislögreglustjóra dvelja útlendingar sem sýnt hafa samstarfsvilja við brottflutning sinn. Dvelur þessi hópur í úrræðinu á meðan flutningur úr landi er undirbúinn. 

Því hefur verið haldið fram af stjórnarliðum að útlendingur verði aðeins vistaður í einangrunarbúðum hafi hann ekki fallist á boð um svokallaða „sjálfviljuga heimför”. Því er frumvarpið ekki í samræmi við þær fullyrðingar um að sá hópur sem vistaður verður í einangrunarbúðum sé afmarkaður og fámennur.

Dómsmálaráðherra hefur haldið því fram að fólk hafi „í sjálfu sér sjálfdæmi um það” hvort það verði vistað í einangrunarbúðum en talar í sömu andrá um samnýtingu einangrunarbúða, búsetuúrræðis ríkislögreglustjóra og neyðarskýlis Rauða krossins. Ekki verður séð hvernig íbúar fyrrnefndra úrræða hafi „sjálfdæmi” um hvort þeir verði frelsissviptir ef að niðurstaðan verður alltaf sú sama. 

Ljóst er að einangrunarbúðir þessar beinist ekki aðeins að útlendingum sem ekki fallast á boð um „sjálfviljuga heimför” heldur einnig íbúum í neyðarskýli Rauða krossins og búsetuúrræði ríkislögreglustjóra. Við þetta vakna ýmsar spurningar um hversu víðtækur hópur verði fluttur í varðhald við samþykkt frumvarpsins. 

2. Áhugaleysi á mannúðlegri úrræðum og brot á réttindum barna

Líkt og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) bendir á í umsögn sinni við drögum að frumvarpinu sem birt voru í samráðsgátt þá eru dæmi um yfir 250 önnur úrræði í 60 löndum þar sem varðhald á umsækjendum um alþjóðlega vernd, þar á meðal ósakhæfra barna er ekki talið nauðsynlegt. Þá hefur enginn starfshópur sem kom að gerð frumvarpsins birt niðurstöður þar sem finna má rökstuðning fyrir því að önnur úrræði hafi verið könnuð áður en ákveðið var að koma á fót einangrunarbúðum.

Hvorki dómsmálaráðherra né nefndarmenn í allsherjar- og menntamálanefnd hafa fært rök fyrir því hvers vegna mannúðlegri úrræða var ekki leitað enda þótti stjórnvöldum vistun ósakhæfra barna í einangrunarbúðum vænlegri kostur en á þriðja hundrað annara fordæma sem lágu fyrir.


3. Vistun umsækjenda um alþjóðlega vernd í gæsluvarðhaldi

No Borders Iceland tekur undir áhyggjur Afstöðu - réttindafélags sem snúa að vistun umsækjenda um alþjóðlega vernd í gæsluvarðhaldi. Eftirfarandi er hluti yfirlýsingar Afstöðu:

„Afstöðu hafa borist upplýsingar um að tugir einstaklinga sem bíða brottvísunar frá Íslandi séu vistaðir jafnvel vikum saman í fangageymslum lögreglu við óviðunandi aðstæður. Þar eru þeir oft einangraðir án reglubundinnar útivistar og í sumum tilvikum handjárnaðir við svokallað „belti" þegar þeir fá takmarkaða útivist.

Þessir einstaklingar hafa ekki framið refsiverð brot, en eru engu að síður vistaðir undir aðstæðum sem brjóta í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands um mannréttindi.

Afstaða krefst þess að íslensk stjórnvöld standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um varnir gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð - og að dómskerfið standi um þær vörð!”

Þá hafa stjórnvöld ekki brugðist við yfirlýsingu Afstöðu - réttindafélags sem birtist 26. apríl síðastliðinn. Af einstökum ákvæðum frumvarpsins að dæma er augljós hætta á áframhaldandi brotum á alþjóðlegum skuldbindingum Íslands gegn pyndingum og vanvirðandi meðferð verði umsækjendur um alþjóðlega vernd vistaðir í einangrunarbúðum. Stjórnarliðar hafa dregið upp þá mynd að vistun ósakhæfra barna í einangrunarbúðum sé grundvöllur að mannúðlegra úrræði en því er fjarri lagi að útsetning barna við hættu á pyndingum og vanvirðandi meðferð verði til þess að bæta ástandið. 

Í frumvarpinu er að finna ákvæði um beitingu agaviðurlaga og vistun í öryggisklefum. Vert er að taka fram að í 37. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aðildarríki skuli gæta þess að: 

„Ekkert barn sé látið sæta pyndingum eða annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.”

4. Frekari hætta á broti gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við endursendingu (non-refoulement) 

Eitt helsta markmið þessa frumvarps gengur út á að fólk á flótta skuli hverfa úr augsýn almennings og verða að ósýnilegum tölum sem hurfu.

Til eru dæmi um einstök mál þar sem hætt var við áætlaðan brottflutning í kjölfar nánari athugunar og umræðu. Komi umsækjendur um alþjóðlega vernd til með að vera vistaðir í einangrunarbúðum fyrir brottflutning, þá skapast alvarleg hætta á því upplifanir þeirra sem ekki hlutu réttláta málsmeðferð muni aldrei líta dagsins ljós.

Með þessu gulltryggja stjórnvöld möguleikann á frekari brotum gegn grundvallarreglu þjóðaréttar um bann við því að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu (non-refoulement). 

Fyrsta málsgrein 42. gr. útlendingalaga hljóðar svo: „Ekki er heimilt samkvæmt lögum þessum að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir”

Líkt og áður hefur komið fram í umsögn samtakanna þá eru 3. grein Mannréttindasáttmála Evrópu og 69. grein stjórnarskrár eru undirstöður 42. gr. útlendingalaga. Brot á 42. gr. útlendingalaga jafnast á við brot á Mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands.

Niðurstaða

Samtökin mótmæla frumvarpi þessu af fullum þunga. Það felur ekki aðeins í sér augljósa hættu á frekari mannréttindabrotum heldur markar það áframhaldandi þróun þar sem réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd eru kerfisbundið rýrð með lagasetningu. Í stað þess að afnema lagabreytingar frá 2023 (Þskj. 400 – 382. mál) og 2024 (Þskj. 1084 – 722. mál) sem þegar hafa skaðað líf þúsunda, halda stjórnvöld áfram á sömu braut.

Kröfur:

  • Tafarlaus afturköllun frumvarpsins í heild.

  • Vistun umsækjenda um alþjóðlega vernd í gæsluvarðhaldi verði hætt. 

  • Mannúðlegri úrræða verði leitað. Varðhald á saklausu fólki er aldrei lausn.

  • Innleiðing á skýrri, virkri og raunverulegri vernd gegn broti á banni við endursendingu (non-refoulement) í framkvæmd, og ekki aðeins í innantómu orðalagi á pappír.

  • Endurskoðun á útlendingalögum í heild, í samráði við mannréttindasamtök og sérfræðinga í málaflokknum. Fulltrúar þess hóps sem lögin snúa að skulu eiga sæti við borðið og tillögur þeirra teknar til greina.

                                                                                                                      Lokaorð

Samtökin No Borders Iceland fordæma frumvarpið með djúpri fyrirlitningu. Nú þegar stjórnvöld hafa afnumið síðasta varnagla fólks á flótta með lagasetningu á borð við (Þskj. 400 – 382. mál), (Þskj. 1084 – 722. mál) og (Þskj. 112 – 112. mál) er stefnt að því að svipta umsækjendur um alþjóðlega vernd sínum helgasta rétti, sjálfu frelsinu. Slík stefna er knúin áfram af kerfislægum rasisma, hvítri yfirburðahyggju og þeirri hugmynd þrælahaldsins að hvít yfirstétt geti hneppt brúnt eða svart fólk í fjötra af eigin geðþótta. 

Athugasemdirnar eru ekki tæmandi þótt reynt hafi verið að stikla á alvarlegustu annmörkum þessa frumvarps, enda er frumvarpið svo ómannúðlegt að hvert einasta ákvæði vekur óhug. 

Fulltrúar samtakanna eru reiðubúnir að gera grein fyrir umsögninni á fundi allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis og óska hér með eftir því formlega.




Next
Next

Gadzhi Gadzhiev skrifar bréf til Kristrúnar Frostadóttur