Virkið Evrópa: Þjóðerniskennd og hagsmunir hinna útvöldu

Ríki Evrópu hafa leitað leiða til að loka landamærum að öðrum Evrópulöndum í þeim tilgangi að hefta straum innflytjenda og flóttamanna sem komist hafa inn fyrir múra virkisins Evrópu.

Atvinnustefna í innflytjendamálum

Á undanförnum árum hafa ytri landamæri Evrópu orðið sífellt torfærari fyrir innflytjendur sem þangað leita. Í nýlegri lokaritgerð Álfrúnar Sigurgeirsdóttur kemur fram að landamæri Evrópu séu nánast lokuð öðrum en „arðbærum“ innflytjendum. Þar segir að í grænbók framkvæmdarstjórnar ESB frá 2005 sé talað um að gera arðbærum innflytjendum auðveldara um vik að vinna innan Evrópska efnahagssvæðisins en þessi grænbók fjallar um að innflytjendastefnan eigi nær eingöngu að taka mið af þörfum vinnumarkaðarins og þá ekki síst vegna hækkandi meðalaldurs í Evrópu.

Íslensk löggjöf fylgir eftir stefnu Evrópusambandsins í innflytjendamálum og því geta innflytjendur frá Evrópska efnahagssvæðinu komið hingað til lands og unnið án þess að sækja sérstaklega um atvinnuleyfi. Síðan þessi stefna var tekin upp hefur hins vegar orðið sífellt erfiðara fyrir einstaklinga utan EES að koma til Evrópu til að vinna. Til þess að fá atvinnuleyfi er ekki nóg að þeir fái vinnu hér á landi heldur þarf að vera hægt að sýna fram á að ekki fáist nægilega hæf manneskja í starfið innan EES. Því er innflytjendum sem koma frá löndum utan Evrópu gert nær ómögulegt að flytjast hingað til lands á eigin vegum, nema það hafi til að bera einhverja menntun eða hæfileika sem innfæddir íbúar hafi ekki. Þessi samevrópska stefna veldur því að ytri landamæri Evrópu hafa nánast verið víggirt fyrir fólk utan Evrópu – að undanskildum þeim tilfellum þar sem um er að ræða einstaklinga sem vinnumarkaður ESB hefur not fyrir.

Stefnumótun varðandi innflytjendur og hælisleitendur miðast nú enn frekar við strangara landamæraeftirlit, hversu líklegt sé að viðkomandi einstaklingar muni aðlagast og hvort þeir flokkist sem gagnlegir eða óþarfir (Álfrún Sigurgeirsdóttir).

Áherslan á að innflytjendur eigi að vera „gagnlegir“ endurspeglast í umræðunni um þá sem vinnuafl fremur en fólk. Í lokaritgerð Írisar Bjargar Kristinsdóttur um lagaumhverfi innflytjenda á Íslandi kemur þetta fram:

Hugtakið vinnuafl varð hálfgert samheiti yfir innflytjendur sem fluttust til Íslands á ákveðnu tímabili. Ef slegið er inn ,,vinnuafl“ á leitarvélar koma upp tugi færslna um innflytjendur á Íslandi, hvort sem er í formi frétta, greina eða bloggpistla. Í nóvember 2006 segir þáverandi félagsmálaráðherra í utandagskrárumræðum um málefni útlendinga á Alþingi; … ,,geysilega mikil vinna hefur verið lögð í mál sem varða erlent vinnuafl og innflytjendamál undanfarin misseri“ Orðaval ráðherra endurspeglar þá umræðu sem var á landinu á þessum tíma þar sem umræðan um vinnuafl yfirgnæfði umræðuna um málefni innflytjenda, og sem endurspeglaði á sýn að innflytjendur væru fyrst og fremst vinnuafl.

Miklar hömlur eru á aðgengi innflytjenda sem ekki hafa tryggt sér atvinnuleyfi áður en þeir hafa flutt til Evrópu, svo sem flóttamanna (kvóta-flóttamanna og annara) og fólks sem þangað flyst á grundvelli fjölskyldusameiningar. Ýmsir fræðimenn hafa bent á möguleikar flóttamanna til að sækja um hæli í Evrópu hafi orðið takmarkaðri eftir að sameiginleg stefna ESB í innflytjendamálum var tekin upp. Stefnan snúi því að miklu leyti að því að takmarka fólksflutninga til álfunnar í heild.

Stjórnmálafræðingurinn Peo Hansen hefur haldið því fram að lönd Evrópusambandsins leggi mikla áherslu á að það orðspor fari af þeim að þar sé hælisleitendum ekki vel tekið. Taki lönd vel á móti hælisleitendum sé það illa liðið meðal ríkisstjórna hinna Evrópusambandsríkjanna. Með því að taka upp sameiginlega stefnu í innflytjendamálum hefur hælisleitendum í Evrópu fækkað og minni áhersla er lögð á fjölmenningu en áður var. Á sama tíma er einsleitni í auknum mæli hampað af þjóðernissinnuðum flokkum sem sprottið hafa upp um alla álfuna.

Í ritgerð Álfrúnar kemur fram að það sé opinber stefna ESB með Lissabon sáttmálanum að verða að stórveldi á sviðum efnahagsmála, en í þeirri stefnu er að finna meginskýringuna á innflytjendastefnu sambandsins þar sem eingöngu arðbærum innflytjendum er hleypt inn í álfuna en hurðinni skellt á nefið á öðrum. Fjölmargir fræðimenn hafa hrósað hnattvæddum kapítalisma fyrir að draga úr mikilvægi þjóðríkisins og þar með úr þjóðernishyggju og öllum þeim vandræðum sem fylgja henni. Róttækir hugsuðir hafa aftur á móti bent á mikilvægi þjóðríkisins til að viðhalda kapítalisma og með tilkomu yfirþjóðlegra afla, líkt og ESB og NAFTA, verði breytingin einungis í þá átt að sambandsríkið taki við hlutverki þjóðríkisins í viðhaldi kapítalismans. Hörð innflytjendastefna og landamæraeftirlit eru álitin grunnnauðsyn þessa þar sem þau haldi hluta mannfjöldans úti en með því móti geta valdamikil ríki haldið niðri launum og framleiðslukostnaði til hagsbóta fyrir sína eigin þegna. Því hefur sprottið upp samevrópsk þjóðerniskennd í stað þeirrar sem byggir fyrst og fremst á þjóðríkinu en afleiðingarnar eru svipaðar; áherslan er lögð á uppbyggingu efnahagsveldisins Evrópu á kostnað annarra heimshluta.

Þjóðernishyggja

Þorgerður Einarsdóttir og Guðný Gústafsdóttir hafa gagnrýnt innflytjendastefnu Íslands að því leyti að hún byggist á þjóðernislegri menningarstefnu, sem felur í sér ofuráherslu á verndun íslenskrar menningar og tungu. Sú fræðsla sem innflytjendur hljóta er fyrst og fremst vinnumarkaðstengd og miðar að því að gera innflytjendur að nothæfu vinnuafli, fremur en að mannúðarsjónarmið ráði eða samfélagsleg samhjálp.

Stefna ESB virðist ennfremur fela í sér mismunun milli upprunalanda fólks, þar sem mikill greinarmunur er gerður á einstaklingum sem koma frá löndum sem þurfa vegabréfsáritun til Evrópu og þeirra landa sem ekki þurfa hana. Í ritgerð Álfrúnar kemur fram að:

Í greinargerð Framkvæmdarstjórnar Evrópusambandsins, sem ætlað er til útskýringar á því hversvegna sum lönd eru „svartalistuð“ en önnur ekki, eru þó engar útskýringar gefnar. Því virðist sem um beina mismunun og fordóma sé að ræða, þar sem þetta má skilja sem svo að álitið sé að einstaklingar frá ákveðnum löndum séu líklegri en aðrir til að fremja glæpi eða gerast ólöglegir innflytjendur. Þegar þetta er hafti í huga og skoðað er hvaða lönd það eru sem „prýða“ svartalista sambandsins, má draga þá ályktun að Evrópusambandið mismuni á grundvelli kynþátta, þar sem mikill meirihluti íbúa þessara landa er „ekki hvítur“.

Einnig var fjallað um þetta í fyrri umfjöllun Rósta um þessi mál, þar sem fram kemur að yfirmaður Evrópuráðs um málefni flóttamanna álíti stefnu ESB hreinlega rasíska, þar sem sambandinu fannst lítið til þess koma að taka við hálfri milljón flóttamanna þegar stríðið á Bosníuskaganum fór fram, en nú þyki alveg ómögulegt að taka við 25 þúsund manns sem þangað hafa leitað frá Norður-Afríku. Sérleg áhersla virðist lögð á að hefta aðflutning fólks frá löndunum sunnan Sahara með samningum við ríki Norður-Afríku um að þeim verði haldið eftir þar, óháð því með hvaða hætti það væri gert.

Auk þess gefur svo mismunandi meðferð á innflytjendum, eftir aðstæðum þeirra og eiginleikum til kynna að Evrópusambandið starfi í raun sem eitt risavaxið þjóðríki sem verndi valdastöðu sína og yfirburði gagnvart öðrum ríkjum. Hugi ekki að neyð eða aðstæðum einstaklinganna, heldur mismuni þeim og forgangsraði allt eftir því hvaða gagn sambandið geti haft af þeim (Álfrún Sigurgeirsdóttir).

Innflytjendastefna Evrópu virðist því stafa af einhvers konar sameiginlegri evrópskri þjóðernisstefnu, þar sem samevrópsk sjálfsvitund hefur að einhverju leyti tekið við af þjóðernisstefnu einstakra ríkja. Benedict Anderson hefur fjallað um þjóðríkið sem ímyndað samfélag, þar sem sköpuð er einhvers konar þjóðarvitund meðal fólks sem deilir sama landsvæði. Í stað þess að þeir sem deila þessu landsvæði eigi margt sameiginlegt er áherslan lögð á hvað er ólíkt með þeim og einhverjum öðrum. Fullyrða má að í sameinaðri Evrópu nútímans er þjóðernisvitundin dregin upp sem andstæður evrópskrar menningar – með áherslu á mikilvægi upplýsingarinnar, mannréttinda og trú„frelsis“ – og menningar innflytjenda, sem álitnir eru afturhaldssamir, hallir undir ójafnrétti og jafnvel ofbeldisfullir. Með þessum ímynduðu andstæðum „okkar“ og „hinna“ er sköpuð sjálfsmynd sem byggir ekki á raunverulegum staðreyndum, heldur þeirri ímynd sem „við“ viljum draga upp af „okkur“ sem vernara frelsis og mannréttinda. Raunin er sú að einungis þeim innflytjendum sem henta þessari sjálfsmynd, og efnahagslegum hagsmunum, er hleypt að. Öðrum er sagt að éta það sem úti frýs.

Previous
Previous

Dagbók Mohammed Alhaw